Verkefnið

Samtökin sem við ætlum að vinna með heita Knysna Education Trust og vinna að hjálparstarfi á Western Cape svæðinu í S-Afríku. Þau voru stofnuð árið 1993 og eru sjálfseignarstofnun. Rekstrarlegur grundvöllur samtakanna byggir á framlögum bæði félaga og einstaklinga. Nokkrir fastir starfsmenn sjá um reksturinn og fastir starfsmenn í skólunum fá bæði þjálfun og laun. Samtökin stjórna núna 39 skólum og nemendur eru rúmlega 2000. Markmið þessara samtaka er að tryggja börnum á aldrinum 0-7 ára menntun miðað við aldur og góða næringu. Hugmyndir þeirra um að 1000 fyrstu dagarnir í lífi hvers barns skipti sköpun teljum við að séu mikil sannindi. Enn fremur sjá samtökin um að þjálfa og kenna starfsfólki í „township“ þannig að þau verði fær um að kenna grunnatriði og hvernig hugsa á vel um börnin. Samtökin leggja einnig mikla áherslu á að tengjast fjölskyldum barnanna og reynt er af fremsta megni að fræða og efla foreldra til að örva og sinna börnum sínum vel. Haldin eru foreldrafræðslunámskeið í þessu skyni. Hugmyndafræðin byggir á því að undirbúa börnin sem koma frá bágstöddum fjölskyldum þannig að þau hafi fengið undirbúning fyrir almenna skólagöngu. Án slíks undirbúnings er almenn skólaganga þeim flestum ofviða þar sem að foreldrar þeirra eru oftast hvorki læsir né skrifandi og matur er oftast af skornum skammti.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Knysna Education Trust eru með á sínum snærum skólaeiningu fyrir fullorðna þar sem starfsfólk skólanna sem í flestum tilvikum kemur sjálft úr township fær kennsluþjálfun og fræðslu um ummönnun barna. Einnig eru haldin ýmiskonar námskeið sem standa starfsfólki til boða. Starfsmaður á vegum samtakanna hefur það hlutverk að vera á flakki í hverfunum til að kynnast fjölskyldunum og ávinna sér traust til að foreldrarnir gefi barni sínu leyfi til að fara í skólann. Fleiri þúsund börn á Knysna svæðinu eru annars sjálfala á götum úti í township alla daga án nokkurs eftirlits þar sem foreldrar þeirra hafa sökum vanþekkingar ekki skilning á mikilvægi þess að börnin njóti mennta. Í flestum tilvikum eru það eldri systkini sem koma með börnin í skólann eða þau koma sjálf þrátt fyrir að þau séu mjög ung. Foreldrarnir eru ýmist í vinnu eða lifa af styrkjum og betli. Knysna Education Trust samtökunum kynntist ég (Ólöf) þegar ég heimsótti Knysna fyrir tveimur árum er ég var á ferð með rótarýfélögum. Rótarýklúbbar víðs vegar um heiminn styrkja þessa skóla með veglegum hætti og tryggja þannig menntun fjölmargra barna bæði á þessu svæði og víða um heim þar sem þörf er á. Ég er stolt af því að tilheyra rótarýhreyfingunni sem hefur áorkað ótrúlega miklu til að bæta stöðu margra bágstaddra og koma í veg fyrir veikindi með bólusetningum. Starfið okkar mæðgnanna fyrir þessi samtök er enn ekki fastmótað en við erum til í að gera hvað sem er í skólunum – bara að það nýtist börnunum og fólkinu þeirra. Líklegast munum við aðstoða við kennslu og ummönnun. Við höfum með okkur nokkrar spjaldtölvur sem við ætlum að nýta til að kenna einfalda stærðfræði og ensku. Spjaldtölvurnar verða síðan eftir í skólunum og munu vonandi nýtast áfram.

 

Hér  er myndband þar sem samtökin kynna starfsemina sína sem við hvetjum ykkur til að horfa á. Það er rétt að geta þess að í myndbandinu eru „flottustu“ skólar samtakanna heimsóttir en í
mörgum tilvikum eru aðstæður heldur verri en þarna er sýnt. Bárujárns- og það sem við köllum
kofaskrifli er ekki óalgengt skólahúsnæði á þessu svæði.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Að lokum langar mig að segja ykkur frá því að þegar ég heimsótti Knysna skólana þá varð ég alvegagndofa yfir því hversu flott og faglegt starf var unnið þarna þrátt fyrir lélegar aðstæður miðað viðþað sem við þekkjum.

© 2019 Oddný Helga Einarsdóttir