Við mæðgurnar Ólöf og Oddný ætlum að dvelja í þrjá mánuði í borginni Knysna í Suður Afríku þar sem við ætlum að vinna sem sjálfboðaliðar í skóla fyrir yngri börn í „township“. Vonandi getum við gert eitthvað gagn og að reynsla okkar af íslensku skólakerfi nýtist. Ólöf er skólastjóri og Oddný Helga er með B.Ed í kennslufræðum og hefur líka kennt bæði í grunnskóla, leikskóla og á skíði. Hér á síðunni ætlum við að segja ykkur frá flakkinu um leið og við veltum vöngum yfir hinu og þessu sem okkur dettur í hug.

Um okkur

Ólöf

Ég er Ólöf bara venjuleg kona sem hef brennandi áhuga á fólki og þá aðalega krökkum. Alla tíð hef ég verið algjör flakkari og veit ekkert skemmtilegra en að upplifa ævintýri á ferðalögum. Heppnin hefur fylgt mér í lífinu og ég á einstakan lífsförunaut hann Einar og krakkarnir okkar þrír eru súper flott.
Frá því að ég man eftir mér þá hef verið að stússast eitthvað með krakka og byrjaði að passa þegar ég var enn algjört smábarn. Ég var líka týpan sem elskaði alla skólaleiki, skráði allar bækurnar mínar eftir bókasafnskerfi – reyndi að halda uppi aga meðal skólafélaga, var óbeðin aðstoðarkennari og hin mesta kennarasleikja. Svona krakki velur að sjálfsögðu að verða kennari og það gerði ég. Síðar varð ég skólastjóri og við það starfa ég í dag. Það er skemmtilegt og gefandi starf – sérstaklega samskiptin við börnin sem eru fádæma hugmyndarík, hrein og bein.
Útivist er áhugamál bæði mitt og allrar fjölskyldunnar. Við njótum þess að vera

á skíðum, förum í fjallaferðir, siglum á kajökunum okkar, sjósund er stundað eins og hægt er og við sofum fáránlega vel
í tjaldi. Þegar ég er ekki að flakka eða vinna þá á ég annað áhugamál sem er að syngja í kór. Kórinn minn er Fríkirkjukórinn í Hafnarfirði. Í kirkjunni er gott að vera og kórfélagarnir og fólkið í kirkjunni eru mér sem önnur fjölskylda.
Snemma þá vissi ég af því að það búa ekki öll börn við sömu aðstæður og ég bjó við. Elsku mamma mín var ötul við að fá mig til að borða fisk með frásögnum af sársvöngum börnum í Biafra sem ekki fengu neitt að borða. Myndir af raunamæddum sársvöngum börnum höfðu mikil áhrif á óharnaða
barnsálina og ég lagði mitt af mörkum í tombólubransanum þar sem ágóðinn var gefin svöngum börnum í Afríku. Í ferðalögum mínum víða um lönd þá hef ég sérstakt dálæti á því að skoða barnaskóla og aðra staði sem tengjast helst krökkum. Í ferð minni til S-Afríku fyrir tveimur árum kynntist ég einmitt
samtökunum Knysna Edutrust. Undir þeirra leiðsögn skoðaði ég nokkra skóla sem þau reka og skemmst frá að segja þá varð ég alveg heilluð. Að sjá hversu miklu var hægt að áorka með því að mennta yngstu börnin og gefa þeim góðan mat hafði mikil áhrif á mig. Þarna var mikil þörf og ótrúlega mikið hægt að gera. Minningarnar létu mig ekki í friði og þegar yndisstelpan mín hún Oddný Helga stakk upp á því hvort að við ættum að skoða það að fara í sjálfboðavinnu með börnum þá var Knysna og skólarnir þar það fyrsta sem mér datt í hug.
Ég hef alltaf haft trú á því að maður eigi að eltast við draumana sína. Draumurinn um að leggja mitt af mörkum til að gera heiminn kannski oggo pínu betri er mögulega að rætast…happagrísinn ég sem vann stóra vinninginn í lukkuhjólinu.

Oddný

Ég er Oddný, 23. ára Garðbæingur með mikinn áhuga á því að ferðast um heiminn og kynnast ólíkum menningarheimum. Ég hef undanfarin þrjú ár lært grunnskólakennarafræði við Háskóla Íslands og er nú þegar komin með B.E.d í greininni. Á næstu árum stefni ég að því að klára framhaldsnámið og verð þá fullgildur grunnskólakennari. Samhliða náminu hef ég bæði unnið í grunnskóla og leikskóla og kunnað vel við hvoru tveggja. Það þarf því ekki að koma á óvart að ég hef mikið dálæti á því að vinna með börnum. Í þó nokkurn tíma hefur mig langað til að kenna börnum sem hafa aðra sýn á nám en þau íslensku. Það er kannski ekki viðeigandi að segja að íslensku krakkarnir okkar séu vanþakklátir því að fá að ganga í skóla, en þeir átta sig kannski ekki fyllilega á því hvað það eru mikil forrréttindi. Ég tel að þessi reynsla muni hálpa mér að nálgast starf mitt sem kennari í framtíðinni og í lífinu sjálfu. 

             

© 2019 Oddný Helga Einarsdóttir