• Oddný

Vorfrí í skólunum

Núna næstu vikuna eru allir grunnskólar í vorleyfi hér í Knysna og fá börn mæta í forskólana. Á

þriðjudaginn er Heritage day (Upprunadagur) en þá er almennur frídagur. Flestir halda upp á daginn með því að grilla (braai) og kalla daginn Braai day. Hér er alltaf verið að grilla – sjá má

reykjarstrókana um allan bæ og á opnum svæðum í kring um bæinn eru óteljandi mörg

almenningsgrill. Þar kemur fólk saman og grillar alls konar skemmtilegan mat. Margir grilla skrítna boereworse pylsur, strútakjöt og alls konar steikur. Með þessu borða þeir grillbrauð einhverjar bollur fylltar með osti og öðru góðgæti. Við fórum og grilluðum í gær á ströndinni. Þar eru fjölmörg grill og mikið af nestisborðum. Samnýttum grill með öðrum og var það hin ágætasta skemmtun. Kona á næsta borði var svo glöð yfir því að vorið væri komið að hún kom sérstaklega til að faðma okkur vegna vorkomunnar.


Svo er mikið um að vera í íþróttunum hérna á Western Cape. Heimsmeistaramótið í rugby er byrjað og kepptu S-Afríkumenn við Nýsjálendinga í gær. Töpuðu að vísu þessum fyrsta leik. Við fórum á bar að fylgjast með þrátt fyrir að mamman skildi ekkert í þessu hnoði og slagsmálum þá var gaman að gera eins og hinir hérna. Í dag var hér hjólakeppni þar sem hjólað var á fjallahjólum yfir fjallgarðinn hér fyrir norðan 100 km. 4600 manns tóku þátt í versta veðri sem verið hefur hér í lengri tíma. Öll félagasamtök í bænum tóku þátt í að halda keppnina og manna öll þau störf sem þurfti. Allur ágóði fer í góðgerðarmál og m.a. fá skólarnir í township stuðning. Lionsklúbburinn hér á svæðinu er formlegur mótshaldari. Alveg er það ótrúlegt hvað margir hér eru duglegir að leggja fram vinnu sína að mörkum.


Um helgina er líka keppni í kajakapóló hér í höfninni. Um er að ræða afríkumótið í greininni. Ekki vissi ég nú að þessi íþrótt væri til og þá ekki að í henni væri keppt. Við fórum og horfðum á og þetta var bara skemmtilegt.


Skemmtileg helgi búin og við bíðum þess spenntar að fá til okkar gesti á morgun sem ætla að vera með okkur næstu 10 daga. Skólinn í fríi og við bara að njóta lífsins og skoða enn betur umhverfið hér í kring.
Á markaðnum
Grillað við ströndina

Útsýnið frá grillinu
0 views

© 2019 Oddný Helga Einarsdóttir