• Oddný

Township

Við höfum ekki fundið gott íslenskt nafn á þessi hverfi sem ganga undir nafninu Township í S-Afríku. Slík hverfi eru um allt landið og íbúarnir skipta hundruðum þúsunda. Raunar er erfitt að vita hversu margir búa þar vegna þess að íbúarnir eru ekkert endilega skráðir í opinberum skjölum. Það er nærtækt að kalla þetta fátækrahverfi en okkur mæðgunum finnst það ekki gott heiti. Það er gildishlaðið og að okkar mati er það líka niðrandi. Fólkið sem þarna á heima á skilið sömu virðingu og annað fólk og að heimili þeirra séu ekki flokkuð af okkur ríka fólkinu út frá okkar heimsmynd.

Flestir sem búa þarna eru jú sannarlega fátækir á okkar mælikvarða en eru ekkert endilega ósáttir við aðbúa þarna – þarna er jú þeirra fólk og menningin þeirra. Uppruni hverfanna er frá þeim tíma þegar aðskilnaðarstefnan var við líði í landinu. Dökka fólkinu var þannig úthýst úr borgum og þeim skipað að koma sér fyrir í úthverfum þar sem aðbúnaður var vægast sagt lélegur og innviðir nánast engir. Húsakynnin voru og eru aðalega lélegir kofar byggðir úr bárujárnsplötum, kassaskriflum og pappa. Sumsstaðar hafa þó sveitafélög unnið að því að byggja upp í þessum hverfum og hafa þá sett upp bæði blokkir og lítil hús fyrir íbúana. Í hverfunum má víða finna litlar búðir, handverkssölu og verkstæði þar sem íbúarnir sinna sínum viðskiptum. Grunnskólar fyrir eldri nemendur eru í hverfunum en því miður þá er allur gangur á því hvort að börnin sækja skóla þrátt fyrir að það ríki skólaskylda. Það er mikið líf á götunum í Township. Fjöldi brosandi barna að leika sér saman, strákar í fótbolta og litlar stelpur með dúkkuræksni og annað lítiðfjöllegt dót. Að fylgjast með börnunum minnir okkur á að það er ekki dýrt og fínt dót sem veitir hamingju heldur er það samvera og öryggi sem skiptir máli. Karlar hanga saman á spjalli og konur bera þvott og annan heimilisvarning á milli staða. Svín og hundar ráfa um og hirða upp rusl og matarafganga og víða er sóðaskapur. Við mörg húsanna er samt greinilega snyrtimennska og konurnar sópa stéttina. Í stuttu máli má segja að í hverfunum býr að mestu leyti friðsælt gott fólk sem sinnir sínum daglegu þörfum rétt eins og fólkið í Garðabænum. Margir halda að það ríki mikil óöld í svona hverfum. Auðvitað skerst í odda hjá þeim enda búa þarna ákaflega margir og sumir við ömurlegan kost og þekkingarskort. Eiturlyfjaneysla er mikil og sjúkdómar eins og eyðni er útbreidd. Það er samt engin ástæða til að óttast þessi hverfi eða halda sig frá þeim. Hér þarf auðvitað bara að vera varkár eins og annars staðar og sína fólki virðingu og muna að við erum öll eins inn við beinið.

0 views

© 2019 Oddný Helga Einarsdóttir