• Ólöf Sigurðardóttir

Strandferð með 80 börnum

Við fáum að taka þátt í fjölbreyttu skólastarfi hér í Knysna. Í einum af skólunum sem við erum að vinna í ( sá sem er best settur hvað varðar fjármagn) var farið í strandferð í síðustu viku. Skólastýran leytaði til stuðningsaðila varðandi kostnað og náði hún að afla fjármagns fyrir rúturnar. Pantaðar voru þrjár smárútur fyrir börnin 80 og starfsmennina sem voru 8. Rúturnar rúma 15 í sæti þannig að það var vel troðið í hvern bíl. Ekkert stress varðandi öryggi barna í bílum hér :( Flest börnin eru 5 og 6 ára en þau yngstu eru 2 ára. Öll komu þau sjálf með bakpokana sína með handklæðum og öðru tilheyrandi. Hjá sumum stubbunum voru töskurnar álíka stórar og eigandinn sjálfur. Það lýsir vel hversu sjálfstæð og dugleg börnin hér eru frá unga aldri. Metnaðarfulla skólastýran sem stjórnar þessum skóla valdi að fara með börnin á klettaströnd þannig að finna mætti krabba og fiska. Okkur mæðgum fannst staðarvalið frekar galið þar sem öldur Indlandshafsins eru mjög ágengar einmitt á þessum stað og klettarnir all svakalegir. Raunar er þetta ein af fallegri ströndunum hér við bæinn - litirnir bæði í klettunum, gróðrinum og sjónum alveg einstakt. Fyrirfram þá gátum við bara ekki skilið hvernig þetta ætti að ganga upp með svona lítil börn. Matseljan mætti auðvitað líka og samanstóð nestið af hálfri samloku - allir fá auðvitað eins - og hér virðist ekkert barn vera með ofnæmi eða óþol. Svo skar hún líka niður risastóra melónu á steini. Allir drukku vatn úr könnum og eftir vatnið fengu svo allir popp í könnurnar sínar. Einfalt og gott - börnin gerðu þessu góð skil og borðuðu allt sem þau fengu með slatta af sandi eins og gera má ráð fyrir :)

Allir fengu aðeins að busla og bleyta sig í sjónum undir vökulu auga kennara og Jasons húsvarðar sem hafði nóg að gera í þessar reisu.

Ferðin gekk ljómandi vel og allir fóru heilir heim. Þarna eins og svo oft hér á þessu flakki lærðum við mikið. Fyrst það að litlir krakkar geta gert svo mikla meira en við reiknum með. Í öðru lagi það að með eljusemi og jákvæðni eins og kennararnir í þessum skóla hafa í ríkum mæli er hægt að gera ótrúlega hluti. Enn og aftur þá fyllumst við auðmýkt. Njótið þess að skoða myndirnar af flottu krökkunum.


Fyrsta rútan mætt og börnin bókstaflega velta út úr þrengslunum.Gengið niður að klettóttri strönd. Allir með sitt dót sjálfir.


0 views

© 2019 Oddný Helga Einarsdóttir