• Oddný

Skóli dagsins

Við fórum snemma í morgun af stað í sveitaskóla hérna uppi í hlíðunum. Hverfið þar er bara nokkuðsnoturt en á heimilum er hvorki rennandi vatn né rafmagn. Íbúarnir sem vinna eru flestir að vinna ásveitbýlum í nágrenninu en eins og annars staðar hér um slóðir eru margir sem vinna ekki neitt. Ískólanum er Afrikaans fyrsta tungumál og enska annað tungumál. Sum börnin tala Khoosa.


Það var rigning í gærkvöldi og í nótt – það gefur tilefni til að ætla að það verði fá börn sem mæta ískólann í dag. Ástæðan: jú þau eiga ekki þurr föt og líklega hafa hvorki þau né foreldrar þeirra sofið mikið í nótt vegna kulda og raka í lélegu húsnæði. Hversu sorglegt er það? – yfir vetrarmánuðina erufærri börn sem mæta í skólann heldur en þegar fer að hlýna. Það getur jú hver maður skilið að það er betra að kúra sig áfram inni frekar en að fara út blautur og svangur.


Humpty Dumpty skólinn er annars vel settur vegna þess að eitt af betri hverfum Knysna styður

þennan skóla sérstaklega með fjárstyrk. Það er því bæði rafmagn og salerni í skólanum sjálfum.

Börnin fá bæði morgunmat og hádegismat í skólanum sem er ákaflega mikilvægt því að líklega er lítið til að borða heima hjá þeim. Á fimmtudögum og föstudögum er maturinn sérlega kjarngóður þ.e meira prótein þannig að þau þoli rýran kost yfir helgina.


Í skólanum eru nemendur stundum allt að 100 en marga daga eru þau miklu færri – alveg ómögulegt að vita hverjir koma eða hverjir koma ekki. Í hverfinu eru líka fjölmörg börn sem eru bara ráfandi á götunum og fara ekkert í skóla. KnysnaEdutrust er að vinna í því að ná þeim börnum í skóla.


En hvað sáum við í dag: Ekki bara eymd og volæði heldur frábærar kennslustundir hjá skemmtilegum og atorkusömum kennurum. Mikið er til af frábærum kennurum hér eins og heima á Íslandi :) Mikið var sungið og dansað og vorum við mæðgur nokkuð forviða á að sjá taktinn hjá litlu stubbunum. Þau tóku svo sannarlega þátt af fullum krafti. Börnin voru ótrúlega kurteis og góð hvort við annað. Við reyndum að taka þátt og aðstoða eftir því sem við gátum.


Hún Lene sem var með okkur fer á milli skóla með stuðning fyrir börn sem dragast aftur úr. Hún tók litla hópa og gerði með þeim alls konar hlutbundin verkefni á skemmtilegan hátt. Magnað að sjá hvað hægt er að gera úr litlu og því sem okkur finnst ómerkilegt.


Eftir helgina förum við í annan skóla og þá erum við með verkefni – við ætlum að vera með tónmennt og hljóðfæri. Erum komnar með kassa sem í eru ýmis ásláttarhljóðfæri og hristur. Viðfangsefni helgarinnar er því að undirbúa kennslu fyrir þessa litlu snillinga sem eru svakalega taktvissir. Ætli við reynum ekki að kenna þeim eitthvað lag líka…. Þetta er áskorun en við komum jú hingað til að takast á við nýjar ögranir.


Myndirnar tókum við í skólanum í dag.Humpty Dumpty skólinn sem við vorum í er fallega málaður. Það gerðu sjálfboðaliðar sem sjá í rauninni um allt viðhald sem snýr að húsinu.


Þegar krakkarnir koma í skólann þá fá þau maísgraut. Aðeins einn skammtur á mann og allir kláruðu upp til agna. Það eru samtök sem sjá skólanum fyrir morgunmat. Mörg barnanna fá lítinn mat heima og því er skólamaturinn mjög mikilvægur. Hér er enginn matvandur.

Skólagangurinn fremur hrörlegur en starfið var flott.

Mjög flott skólalóð.

Skólinn ræktar grænmeti fyrir skólamatinn. Alveg til fyrirmyndar - hollur er heimafenginn baggi.


Leikföng voru ekki mörg en 7 börn gátu hæglega leikið sér saman með 20 legókubba.


Myndrænt dagsskipulag á Afrikaans. Ekki svo ólíkt því sem við gerum :)

Yndislegur vinasöngur sem lauk á því að börnin áttu að knúsa þann sem stóð þeim næst.0 views

© 2019 Oddný Helga Einarsdóttir