• Oddný

Skólastjóri sem lætur ekkert stoppa sig

Hér á þessu flakki okkar þá höfum við kynnst merkilegu fólki. Fólki sem hefur náð miklum árangri með þrautseigju og dugnaði.


Okkur langar að segja ykkur frá henni Brendu. Hún er skólastjóri í smábarnaskóla í einu af hverfunum sem við höfum heimsótt. Skólinn hennar heitir Isiseko.


Brenda er sjálf fædd og uppalin í township og býr þar í litu húsi ásamt fjölskyldunni sinni. Brenda eins og þúsundir annarra sem fæðast á þessum stað naut aðeins grunnmenntunar og ekki gafst tækifæri til að halda áfram í skóla.


Hún byrjaði að vinna við að aðstoða frænku sína sem átti þennan skóla á undan Brendu. Skólinn var þá í bárujárnskofa sem hvorki hélt veðri né vindum. Ekkert var rafmagnið og þá ekki rennandi vatn. Henni fannst gaman í vinnunni og börnin heilluðu hana. Þegar svo frænka hennar ákvað að hætta með skólann þá ákvað Brenda að taka við honum enda vissi hún að ef hún myndi ekki reka skólann þá yrði enginn skóli fyrir börnin í hverfinu. Fljótlega fór hún að gæla við þá hugmynd að safna styrkjum til að byggja nýtt hús undir skólann. Með hjálp góðgerðarsamtaka s.s Rótarýklúbba sem studdu hana dyggilega þá tókst henni að koma skólanum í betra hús. Þetta var 2008. Til að byrja með þá var ekki heldur rafmagn í nýja skólanum og áfram var notuð plastfata sem klósett. En Brenda með mikla seyglu hélt sínu striki. Hún fór eldsnemma á fætur og eldaði bæði morgunmat og hádegismat fyrir skólabörnin sín. Síðan bar hún matinn frá heimili sínu að skólanum þar sem börnin nutu góðs af. Að loknum skóladegi þurfti hún svo að bera óhreina leirtauið til baka heim. Ekki nóg með það – hún þurfti líka að bera heim til sín það sem safnast hafði í klósettfötuna yfir daginn. Þvottur á salernisfötum var því líka eitt af því sem þurfti að græja þegar heim var komið. Hún sagði okkur að þetta hafi verið mikil vinna og þá sérstaklega af því að heima átti hún sjálf lítil börn sem líka þurftu umhugsun. Til allrar hamingju þá tókst henni að koma bæði rafmagni og rennandi vatni í skólann. Nú eru um 50 börn í skólanum hennar á aldrinum 2-6 ára. Í húsinu eru tvær kennslustofur, eldhús og skrifstofa. Starfsmennirnir eru 4 með Brendu. Tveir kennarar, Brenda og kokkurinn. Samtökin okkar

KET hafa aðstoðað Brendu og veitt henni kennslu og fræðslu sem nýtast vel í starfinu. Á veggnum á skrifstofunni hennar sáum við fjölmörg viðurkenningarskjöl um öll þau námskeið sem hún hefur sótt á vegum KET.


Skólinn hennar er frábær og börnunum virðist líða þar mjög vel. Bæði Brenda og hinar konurnar sinna börnunum mjög vel og bjóða þeim upp á fyrsta flokks kennslu þrátt fyrir fremur fátæklegan aðbúnað. Börnin borga um 200 rönd (1800 krónur) á mánuði. Oft geta foreldrarnir ekki borgað og þá er bara minna til að moða úr – ekki var það mikið fyrir. Meðan við vorum í skólanum hennar Brendu þá sáum við lítinn pjakk við hliðið sem ekki var í skólanum. Foreldrar hans hafa ekki ráð á að senda hann í skólann. Brenda ætlar þrátt fyrir það að taka hann inn í skólann eftir áramót – hún segist finna ráð til að fjármagna veru hans í skólanum.


Laun þeirra sem vinna í skólanum eru mjög lág og eru oftast greidd af skólagjöldunum. Í sumum

skólum borgar sveitarfélagið launin og hefur okkur verið sagt að kennari fái um 35.000 kr á mánuði ef sveitarfélagið borgar – töluvert minna í hinum skólunum.


Næsta stóra verkefni í skólanum er að laga gólfið í húsinu en það eru myglaðar krossviðsplötur sem lagðar voru á moldina sem undir er. Ég veit að það munu einhverjir góðir aðilar koma að því verki með henni.


Brenda var mjög spennt fyrir spjaldtölvuverkefninu okkar og hafði mikinn áhuga á að nýta tæknina í framtíðinni. Krakkarnir voru dugleg og fljót að læra – þau eru ótrúlega góð í ensku og mörg þeirra kunna heilmikið að lesa þrátt fyrir ungan aldur.


Brenda er að okkar mati sannkölluð hvunndagshetja og við fyllumst auðmýktar – þetta er kona sem gefst ekki upp og lætur ekki flóknar aðstæður slá sig út af laginu.0 views

© 2019 Oddný Helga Einarsdóttir