• Oddný

Skólarnir í sveitinni

Í dag fórum við í skóla sem eru nokkuð langt frá bænum okkar. Við fórum með kennurunum í KET á slyddujeppa sem þau eiga. Það veitti ekki af þar sem vegirnir í litlu sveitaþorpin eru óskaplega lélegir. Við myndum kannski kalla þetta troðninga. Annar skólinn er djúpt inni í skóginum í litlu þorpi þar sem eru nokkur hús. Fólkið sem býr þar vinnur í þjóðgarði þar skammt frá og skólahúsið er í eigu garðsins. Íbúarnir eru fátækt fólk sem varla skrimtir af því sem það fær í laun. Skólagjaldið fyrir vistun og mat í leikskólanum er um 1800 krónur á mánuði. Engu að síður eru nokkur börn í þorpinu sem eru ekki í skólanum vegna kostnaðar.


Níu börn voru í skólanum í dag 1-6 ára – jafn falleg og yndisleg og öll hin börnin sem við höfum hitt. Mæðgurnar voru með tónmenntatíma þar sem við kynntum fyrir þeim hljóðfæri eins og hristur, tamborínur, bjöllur og fleira í þeim dúr. Svo sungum við og gerðum taktæfingar sem þau eru snillingar í. Það var engin smá gleði hjá krökkunum með þetta – þau hafa líklega ekki fengið að prófa svona dót og þeim fannst þetta mjög skemmtilegt. Hlógu og hlógu þegar við vorum að spila lágt og hátt. Það þarf ekki mikið til að gleðja þau.


Almennt skortir börnin hérna örvun og oft á tíðum eru starfsmennirnir í skólunum bara að horfa á þau og passa að þau fari sér ekki að voða. KET er að reyna að efla og leiðbeina bæði með því að taka starfsfólkið/kennarana á námskeið og einnig með því að sýna og vera góðar fyrirmyndir varðandi það hvað hægt er að gera. Við erum að vinna í því eins vel og við getum þrátt fyrir vandræðaganginn með Afrikaans og Xhosa

sem við auðvitað kunnum lítið í :)Hér er verið að prófa xylofon. Allir fengu að prófa að spila.

Krúttlegasti skóli sem ég hef komið í. Þarna eru öll börnin saman komin svo falleg og góð.

Það verður ekki sagt annað um S-afriskar konur að þær eru flottar með höfuðfötin sín.

Þetta stelpuskott var svo yndisleg. Hún var yngst í litla skólanum og allir krakkarnir nutu þess að aðtoða hana á alla kanta.

Í þessum skóla geyma allir skóna sína úti vegna þess að það eru svo forugir vegirnir sem þau koma gangandi eftir.

Hér erum við með henni Nellu sem við fylgum í dag. Það er ómetanlegt að kynnast þessum flottu kennslukonum og fá að upplifa menninguna hér með þeim.

0 views

© 2019 Oddný Helga Einarsdóttir