• Oddný

Oh Lord Hallelujah...

Við mæðgurnar njótum þess alla daga að kynnast einhverju nýju og skemmtilegu. Eitt af því sem

kemur nokkuð á óvart er það hversu trúin er áberandi bæði í skólastarfinu og víða í samfélaginu.


Alla morgna þá byrjar skóladagurinn hjá börnunum á morgunbæn sem er nokkuð löng en öll börnin virðast kunna hana vel. Fyrir allar máltíðir þá er það borðbæn og svo er mikið verið að syngja það sem við heima á Íslandi myndum kalla sunnudagaskólalög. Við kunnum nú orðið þó nokkra slíka söngva bæði á ensku og afrikaans. Kostulegast er að flesta þessa söngva höfum við líka sungið á íslensku. Í dag var uppákoma á bókasafninu eins konar sögukeppni leikskólanna og auðvitað hófst athöfnin á bænahaldi.


Nokkuð kom það okkur á óvart nú í byrjun vikunnar þegar hafist var handa við að æfa helgileikinn fyrir jólasýninguna sem er í byrjun desember. Sagan er eðlilega sú sama og við þekkjum og sálmarnir einnig. Ég verð þó að segja að mér finnst skrítið að hlusta á Heims um ból og Frá ljósanna hásal í sumar og sól um miðjan október. Krakkarnir standa sig vel í æfingunum – María og Jósef faðmast innilega og tala saman í þeirra útgáfu, María er líka flutt á asna sem leikinn er af nemendum og það eru ekki fjárhirðar heldur hermenn. Þetta er óhemju krúttlegt og við hlökkum til að fylgjast áfram með.


Ekki er óalgengt að sjá fólk á veitingahúsum fara með borðbænir og rótarýfundur sem Ólöf sótti hófst líka á bæn.


Síðasta sunnudag drifum við okkur í kirkju en þær eru ótrúlega margar í þessu trúaða samfélagi. Við völdum að fara í kirkju baptista enda héldum við að þar væri gospel. En þar skjátlaðist okkur – að vísu spilaði presturinn á gítar og það var spilað á bassa og trommu en ekkert gospel. Safnaðarfólk tók vel á móti okkur og fannst mikið til þess koma að við værum frá Íslandi. Annars var þetta afar löng guðsþjónusta og ekki var laust við að við værum farnar að hugsa upp eitthvað trix til að komast fyrr út. Til þess kom þó ekki en við ætlum ekki aftur í þessa kirkju  Við eigum eftir að komast í alvöru gospel kirkju.


Vinkonur okkar í skólanum virðast allar vera mjög trúræknar hvort heldur sem þær eru hvítar, litaðar búandi í stórum húsum eða hálfgerðum hreysum. Þær segjast fara nánast í hverri viku í kirkjuna en auk sunnudagaguðsþjónustunnar þá er í hverri viku eitt kvöld fyrir konur, eitt kvöld fyrir karla, eitt fyrir unglinga, bænastundir, biblíulestrakvöld og auðvitað sunnudagaskóli. Einnig eru stundaðir heimafundir með biblíulestri og til dæmis hér hjá nágrönnum okkar fyllist íbúðin á sunnudögum af gestum sem koma og lesa saman hið helga rit auk þess sem þau syngja sálma.


Já hér er hreint ekki bannað að innræta börnum trú og bænir. Vantrú, Siðmennt og hvað þetta allt nú heitir virðist ekki hafa náð fótfestu hér í s-afríkuhreppi :) og bænahaldið virðist bara gera þeim gott. Oh lord Hallelúja... eins og þeir segja hérna.Ein af mjög mörgum kirkjum í township. Ekki tilkomumikil en það er örugglega gott að leita þangað.
Falleg kirkja hér í grenndinni.

Kirkja í township en á lóðinni voru nokkrar beljur á beit.

Litlu krúttin að biðja morgunbænina.

0 views

© 2019 Oddný Helga Einarsdóttir