• Oddný

Fyrsti dagurinn í nýjum skóla

Eftirminnilegt hjá okkur í dag. Við fórum og hittum Angelinu sem er í forsvari fyrir samtökin sem við ætlum að hjálpa meðan við erum hér í Knysna. Hún var alveg yndisleg og skýrði út fyrir okkur

starfsemina hjá þeim. Samtökin reka 33 forskóla, reka einskonar kennaraskóla fyrir konurnar sem vinna í skólunum og sjá einnig um foreldrafræðslu. Samtökin eru með starfsemi í pínulitlu húsi í miðbænum. Eftir fundinn með henni þá ók hún með okkur í skóla í úthverfi. Í þessum svokölluðum township er lítið um skipulag og götuskipulag er með þeim hætti að það er verulega flókið að finna hvert verið er að fara. Göturnar eru ekki merktar og ekki húsin heldur. Hér gildir að taka mið af ýmsum hlutum í umhverfinu til að komast á réttan stað. Angelina rataði ekki í skólann og komu því tvær kennslukonur á móti okkur að einhverjum gatnamótum og fylgdu okkur rest.

Skólahúsið var bara ágætlega snoturt miðað við það sem gengur og gerist. Steypt hús og nokkur leiktæki í garðinum. Innviðirnir voru þó nokkuð öðru vísi en það sem við eigum að venjast á Íslandi.Í hverfinu var mikið líf – hundar geltandi um allt, mikið var af lausum nautgripum svo ekki sé talað um öll svínin sem rótast í skítnum. Mikið var af fólki á ferli og fullt af krökkum sem einhverra hluta vegna voru ekki í skólanum þó svo að sveitarfélagið bjóði öllum grunnskólabörnum upp á skólavist. Börnin í skólanum sem við heimsóttum voru alveg himnesk eins og allir sem hafa hitt hóp af svona fallegum börnum vita. Auðvitað voru þau spennt fyrir okkur mæðgunum og föðmuðu okkur og ríghéldu í þessar nýju konur. Snjallúrið vakti athygli og fallegi gullkrossinn Ólafar freistaði líka. Áður en við förum næst í skólann er líklega best að geyma bæði úr og skart heima. Í frumstæðri skólastofunni var gaman að sjá kraftmikla kennslukonu stýra söngstund þar sem þau tóku hressilega undir í alls konar afríkskum hreyfisöngvum og takturinn var magnaður hjá stubbunum. Svo voru tekin nokkur lög á ensku sem bæði kenndu bókstafi, tölustafi og nokkur algeng orð. Það var alveg ótrúlegur hávaði í kennaranum og þá ekki síður í krökkunum sem nutu stundarinnar – það var greinilegt.

Það er gaman að velta því fyrir sér hvernig ólík tungumál hljóma

með tilliti til hávaða. Khosa málið með alls konar smellum virkar á okkur mjög hávært.

Þetta var flott kennslustund og kennarinn náði að stýra litlu krílunum af mikilli snilld (og hávaða) og með mikilli virðingu. Við mæðgur gerðum ekki mikið gagn í dag en förum aftur á föstudaginn en þá verður fyrsti formlegi „vinnudagurinn“ okkar. Meira þá.

Við tókum ekki myndir inni í skólanum í dag en gerum það síðar. Hér fylgja nokkrar myndir af

húsunum í hverfinu.0 views

© 2019 Oddný Helga Einarsdóttir