• Oddný

Foreldrafundur á framandi slóðum

Í gær þá vorum við svo ljónheppnar að fá tækifæri til að taka þátt í foreldrafundi í einu af hverfunum. Til fundarins var boðað með þeim hætti að forráðamenn fengu boðsbréf vegna fundarins og sérstaklega var tekið fram að boðið væri upp á pæ og gjafir til barnanna. Það er engin launung hér að verið er að gera allt til að fá foreldra eða aðstandendur til að mæta. Þegar illa stendur á hjá fólki þá hljómar ókeypis pæ sérlega vel og gjafir til barnanna trekkja ekki síður. Við mættum snemma með konunum okkar frá KET sem voru með fræðslu á fundinum. Fundurinn var haldinn í einum af besta forskólanum í township. Þegar við komum voru nokkrir apar til hálfgerðra vandræða þar sem þeir eru bæði stríðnir og sólgnir í mat. Þetta eru litlir apar kallaðir velvet monkeys en líka eru hérna stórir baboons en þeir mættu ekki á fundinn :) Við komu á fundinn hófst hin mesta skráningarvinna sem fólst í því að skrá niður þá sem mættu og innheimta boðsbréfin því ekki máttu margir koma með hverju barni. Við mæðgurnar tókum á móti hópnum sem kom á fundinn sem haldin var á Afrikaans en í annarri kennslustofu var kynningin á Khosa tungumálinu sem margir tala hérna. Það var afar sérstakt að kynnast því að sumir foreldrarnir sem mættu á fundinn gátu ekki lesið hvað átti að skrá og þurftum við að lesa fyrir þau. Það eru nefnilega fjölmargir hér ólæsir og það er eitthvað sem við eigum ekki að venjast á íslenskum foreldrafundum.


Aðstæður á fundinum voru nokkuð sérstakar – fjöldi mætti og flestir sátu á gólfinu. Skyggnusýningin var sýnd á laki sem var hengt upp með límbandi. Efnið sem kennararnir fluttu var hins vegar mjög gagnlegt. Aðallega var verið að ræða almenn atriði í uppeldi barna og hvernig megi örva þau heima fyrir. Rétt eins og við gerum með okkar yngstu börnum. Það var skemmtilegt á fundinum – afríkufólkið talar hátt og mikið og hlær enn meira sem gerir samskiptin bæði lifandi og fjörug. Á miðjum fundi læddist inn hrikalega stór kónguló – svokölluð regnkónguló sem birtist gjarnan þegar það er rakt hér um slóðir. Það fór aðeins um fundarmenn en kennarinn náði að skella á hana hurðinni áður en hún komst alla leið inn. Við mæðgur urðum aðeins smeykar enda áttum við eftir að ganga frá með kennurunum og auðvitað þurftum við að fara inn og út um þessar dyr…. en hún sást ekki meir.

Frænka hennar er samt sest að í bílskúrnum okkar og eru nú allar ferðir þangað farnar af mikilli

varfærni…..arrg hvorug okkar þolir kóngulær….


Salerni var í einu horni herbergisins og var lítið tjald hengt fyrir. Það kom þó ekki í veg fyrir að fólk fór óhikað á salernið með tilheyrandi pissuhljóðum meðan á fundi stóð. Ekki var neitt sérstakt mál þó svo að tjaldið flökti frá og viðkomandi blasti þá við á klósettinu. Það var sértakt og staðfesti það að við mæðgur erum óttalegar teprur. Hér erum við að tala við fólk sem fer óhikað á salerni hvar og hvenær sem er…það er alveg frábært finnst okkur…en samt svolítið spes.


Fundarmenn voru flestir með börnin sín með sér og ég get svarið það – börnin sátu grafkyrr og hlustuðu á það sem fram fór af stakri prýði. Ég held að íslensku krílin okkar hefðu ekki látið þetta yfir sig ganga. Einn lítill sætur pjakkur mætti með mömmu sinni í fínni 66˚n úlpu. Þá vorum við hissa en glaðar. Líklega er þetta gjafaúlpa frá hjálparsamtökum. Það er frábært að fá staðfestingu með beinum hætti á því að notuð föt sem við setjum í gáma nýtist. Raunar var samt 20 stiga hiti og því nokkuð heitt í íslenskri dúnúlpu en hann var flottur í henni.


Eftir fundinn þá auðvitað fórum við heim og fannst okkur það pínu ögrandi enda komið svarta myrkur og við í miðju township. Við vorum ekki einar á ferð og samferðamenn okkar fullvissuðu okkur um að allt væri í stakasta lagi. Við hlið skólans mátti í myrkri heyra mikinn söng og tónlist sem ómaði um allt….úff… var þarna eitthvað svakalegt partý hugsuðum við…þangað til við heyrðum óminn …o lord halleluja…endalaust og aftur. Þetta var þá bænakvöld í heimahúsi sem var blastað yfir allt og alla…Guð fylgdi okkur því með beinum hætti heim á leið. Við komumst heilar heim reynslunni ríkari og glaðar með að hafa fengið tækifæri til að taka þátt í þessu.Skólinn sem fundurinn var haldin í The learning tree. Sannkallaður fyrirmyndarskóli á þessum stað. Fjölmörg samtök styrkja þennan skóla og marga aðra. Rótarýklúbbar víða um heim styðja starfið vel.

Mjög fínt skólahús - byggt á mörgum pöllum alveg við frumskóginn.


Velvet monkey að gera sig líklegan að stökkva á þakið til að fara þaðan i eldhúsið...hrekkjusvín

Endalaus hugmyndaauðgi í hvernig nota megi gömul dekk. Sannkölluð endurnýting.

Gaurinn sem býr í bleika húsinu er sjálfskipaður húsvörður í skólanum. Við ræddum við hann þegar verið var að græja fundinn og hann var alveg frábær. Það er nefnilega bara venjulegt fólk sem býr í township.

Foreldrafundur að hefjast. Öllu tjaldað til og ekkert verið að vandræðast þó svo að aðbúnaðurinn sé kannski ekki upp á 10.

Fundarmenn og börnin þeirra.

Í lokin voru það svo veitingar og gjafir. Kjötpæ og safi. Börnin fengu bolta, tannbursta, litla jesúbók og blómafræ.

Litli kappinn í 66 úlpunni sinni.

0 views

© 2019 Oddný Helga Einarsdóttir