• Oddný

Endurnýting og skemmtilegar hugmyndir

Það kom okkur mæðgum nokkuð á óvart hversu víða er verið að hugsa um flokkun og endurvinnslu hérna í Knysna. Um allan bæ eru ruslafötur til að flokka í og við hundakonurnar fögnum því að sjá endalaust mikið af ruslafötum við göngustíga. Sumsstaðar eru meira að segja pokar í boði fyrir þá sem hafa gleymt heima. Mikill fjöldi fólks vinnur við að þrífa opin svæði og alltaf er verið að þrífa göturnar. Hér erum við að tala um bæinn sjálfan þar sem „ríka“ fólkið á heima.


Í Township er hins vegar mikill sóðaskapur rusl og drasl út um allt. Það má finna ruslatunnur en

margir virðast frekar kjósa að henda ruslinu þar sem þeir eru staddir. Íbúar í township eru stundum að kveikja í ruslinu sínu og þá liggur yfir hverfinu hræðileg stækja. Dýrin sem eru á vappi í hverfinu eru að rótast í draslinu – hundar, svín, kýr og geitur finna eflaust eitthvað ætilegt. Ekki þarf að lýsa fyrir ykkur skítafýlunni sem kemur af úrgangnum úr dýrunum þegar hitnar yfir daginn. Stórar kúadellur, svínaskítur og hundaskítur eru ekki til að bæta ástandið. Fyrir okkur er alveg óskiljanlegt af hverju það er ekki gert átak í því að hirða upp allan þennan sóðaskap og hjálpa þessum þúsundum manna sem búa þarna við að laga að minnsta kosti þetta. Í hverfunum eru nokkrir kamrar ýmist á vegum sveitarfélagsins sem sér þá um að þrífa þá eða í eigu íbúanna sjálfra sem eru að okkur er sagt algjör viðbjóður. Á mörgum stöðum er ekki rennandi vatn og getum við þá ímyndað okkur sóðaskap og sýkla. Við höfum verið í skólum þar sem ekki er rennandi vatn og þurfa þá börnin að fara í hús í grenndinni ef þau þurfa að gera númer tvö… strákarnir pissa bara út við girðingu en stelpurnar halda bara í sér yfir daginn. Þetta er sem betur fer algjör undantekning og eru ýmsir sjálfboðaliðar og hjálparsamtök eins og t.d. KET sem við erum að vinna með að styðja skóla við að laga þetta.


Ruslið hérna heima hjá okkur er tekið einu sinnu í viku. Þá setjum við pokann út fyrir hliðið. Glær poki með endurvinnanlegu pappa og plasti. Svarti pokinn fyrir það sem ekki er hægt að endurvinna. Strax þá morgna sem ruslið er sett út þá koma fátækir ruslasafnarar og fara yfir það sem við erum að henda. Það er sorglegt og sárt að sjá fólk í svo ömurlegum aðstæðum að annarra rusl verður maturinn þeirra. Við höfum nokkrum sinnum hitt á þau við pokana okkar og þau bara brosa og heilsa okkur eins og ekkert sé sjálfsagðara.


Sagt er að fátt sé svo með öllu illt að ekki boði gott – já hér í skólunum sjáum við frábæra

endurvinnslu alla daga. Hér er sko allt nýtt og gaman að sjá hversu hugmyndaríkt fólk er. Leiksvæðin við skólana eru gjarnan uppbyggð með einföldum verðlausum efnivið eins og gömlum dekkjum. Þið sjáið á myndunum hversu hægt er að nota gamla hjólbarða á margvíslegan hátt. (Sjálfsagt er þetta of eitrað fyrir íslensk börn). Plastflöskur, jógúrtdósir og alls konar dollur, niðursuðudósir, tappar, auglýsingapésar og eggjabakkar…allt notað og oft í kennslufræðilegum tilgangi. Litríka tappa má telja og flokka rétt eins og rándýra kubba Liti og aðra smáhluti má geyma í notuðum boxum undan sælgæti eða matvælum. Þetta vekur okkur mæðgur til umhugsunar um gengdarlausa neysluhyggju í okkar samfélagi þar sem við erum alls ekki nægilega dugleg að nýta það sem til fellur….bara kaupa og kaupa….meira drasl um leið og við hendum heillegum og skínandi fínum umbúðum.


Það er líka gaman að sjá hversu mikil hefð virðist vera fyrir því að gefa það sem þú ert búin að nota til skóla og leikskóla. Nánast öll þau leikföng, púsl og bækur sem finnast í skólunum eru gjafir frá almenningi sem hefur ekki lengur not fyrir þetta dót. Í morgun komu t.d. skátarnir hér í Knysna með mikil ósköp af flottum bókum sem þeir höfðu safnað til að gefa í leikskólana. Það er alveg til fyrirmyndar að gefa frekar en að henda.Þetta er einn af flottu leikvöllunum.

Þessi snilldarútgáfa af dekkjarólum er hér á öllum leikskólum. Búið að skera dekkið til og passar svona skínandi vel fyrir litla rassa.


Frábært að minna á barnasímann utan á skólanum.

Einfalt vegasalt og sjáið dekkjaröðina þarna fyrir aftan - vinsælt að hoppa á milli dekkja

Hér er verið að æfa sig í að draga til stafs í hrísgrjónum. Þetta hef ég reyndar séð heima á Íslandi en hugmyndin er frábær

Eitthvað til að klifra yfir - meira dekkjadót

Skemmtileg útfærsla á málaðri dekkjarólu.

Vörubretti eru fyrirtaks drullumallsborð. Dekkin eru líka fínir blómapottar

Hér eru flöskur settar neðan við girðinguna þannig að hundarnir og svínin komist ekki undir. Frábær lausn.

Veggur utan á skólanum málaður með krítarmálningu.


Snillingur að búa til sæhesta (sem eru hér i lóninu) úr vír og gömlum flöskum.

Verðandi sæhestar

Lærdómshvetjandi umhverfi á vegghleðslu í kring um skólann.

Klifurgrind - dekk fest saman með stórum skrúfboltum.

Róla úr risa stóru dekki.

Heimurinn í hnotskurn málaður á skólalóðina. Aðeins bjagað en það skiptir engu máli.

Svona má græja tröppur ef þú átt ekki pening fyrir hleðslusteini.

Hér er verið að flokka og telja tappa.

Illa farnar dekkjatröppur sem ég get eiginlega ekki mælt með. Samt skárra en drullan sem verður þegar rignir. Þetta er sumsé inngangurinn i þennan skóla.

Þessi er bara svo mikið uppáhald að ég varð að deila henni með ykkur. Hann Oswell er yngstur í þessum skóla og er tveggja ára. Þetta er uppáhaldsleikfangið hans í frímínútum. Hann keyrir þennan einfalda bíl um alla skólalóð og brosir og býr til sömu bílahljóð og krakkarnir heima á Íslandi.

0 views

© 2019 Oddný Helga Einarsdóttir