• Oddný

Eftirminnileg upplifun með spjaldtölvur

Síðustu tvo daga þá höfum við farið í þrjá skóla og kennt nokkrum hópum barna 4-6 ára. Meðferðis höfðum við 7 gamlar og úrsér gengnar spjaldtölvur. En maður minn – hvað þær slógu í gegn. Oddný Helga var búin að finna nokkur öpp sem hentuðu þessum aldurshópi – þörfnuðust ekki nettengingar og voru það einföld að þessar litlu vélar réðu við þau. Við vorum að vinna með tölur, talnagildi og ensku talnaheitin. Svo í lok kennslustundarinnar var farið í smábarnaforritun. Fyrsti skólinn sem við heimsóttum var inni í skóginum ( in the busch eins og þau segja hérna) og vegurinn að skólanum var hreint afleitur. Við grínuðumst með það í bílnum að við værum allavega þrjár og það gætu þá tvær ýtt. Skólinn var í afrikaansamfélagi og fólkið þar mjög fátækt. Svæðið sem skólinn stendur fór mjög illa í stórum skógarbruna fyrir tveimur árum og misstu margar fjölskyldur allt sitt og nokkrir úr samfélaginu létust í brunanum. Skólastjórinn var ein að vinna með börnin sem stundum eru 20. Hún var glæsileg og falleg eins og margar afríkukonur eru og hún sinnti börnunum að okkur fannst mjög vel. Skólastjórinn missti allt sitt í brunanum og býr enn í gámi við óviðunandi aðstæður. Krakkarnir koma oftast bara sjálf gangandi til skóla ( já þau eru 4-6 ára) en oft fylgir heimilishundurinn þeim. Hundarnir liggja svo við skólann allan daginn og fara svo heim með krökkunum. Við skólann voru líka ráfandi hænur sem höfðu óskaplega hátt að okkur fannst. Það var reyndar enginn annar sem virtist heyra í þeim. Í skólunum hér er ekki tiltökumál þó svo að það séu bæði svín, beljur, apar, hundar og

rottur á sveimi.


Krakkarnir höfðu aldrei fengið að snerta á svona tæki eins og spjaldtölvunum. Þau hafa séð síma en flestir fullorðnir eiga síma og allir eiga sjónvörp. Tölvur eru hins vegar óvíða til og þá alls ekki fyrir börn. 6 krakkar voru mætt í skólann þennan morgun og fengum við þá tækifæri til að bjóða þeim öllum upp á þessa kennslu.


Þau ljómuðu eins og sólin þegar þau fengu að spreyta sig á verkefnunum. Það var ekki laust við að við mæðgurnar fengjum tár í augun að upplifa gleðina og þakklætið bæði frá þeim og skólastjóranum þeirra. Þau stóðu sig vel og voru fljót að læra hvernig átti að bera sig að. Ekki stóð á því að allir fylgdu fyrirmælum okkar alveg 100%. Þegar við kvöddum þá voru þau spennt að láta okkur vita af því að við ættum að koma aftur. Við munum sem betur fer fá tækifæri til að koma þangað aftur með fleiri verkefni.


Síðari tveir skólarnir sem við fórum í eru hins vegar í nágrannaborg Knysna – Plettenberg bay í stóru township. Skólarnir voru báðir Xhosa skólar og krakkarnir þar tala því bara Xhosa sem er flóknasta tungumál sem við höfum heyrt :) Aðstaðan í báðum skólunum var hreint út sagt ömurleg – í fyrsta skipti síðan við komum hingað þá nánast féllust okkur hendur. Rennandi vatn var ekki í hvorugum skólanum og líklega ekki rafmagn. Skíturinn og fúkkalyktin alveg yfirþyrmandi. Í þessum skólum vantaði bókstaflega allt. Þau áttu nokkur plastborð og stóla – leikföngin voru gamlar umbúðir, blaðadrasl og nokkur ónýt plastleikföng. Skólalóðin var nokkrir fermetrar af mold og engin leiktæki. Fjöldi barna voru í báðum skólum frá eins árs aldri.


Yngstu börnin voru ca 20 saman í pínu lítilli skonsu þar sem þau voru flest í rimlarúmum með

grútskítugum teppadruslum. Ekki voru þau með leikföng stóðu bara í rúmunum tættu í einhverjum gömlum blöðum og böbluðu eitthvað til kennaranna sem voru tvær gamlar konur sem sátu í miðju herberginu. Að sjá þetta reyndi verulega á og gerði okkur meirar.


Stóru krakkarnir í skólanum fengu hins vegar tækifæri til að prófa spjaldtölvurnar okkar. Og þau nutu þess í botn rétt eins og börnin í skóla gærdagsins. Það var ánægjulegt að geta með þessu pínu litla framlagi gefið þeim tækifæri til að kynnast örlítið tækninni og gert þennan skóladag eftirminnilegan.Pínulítill skóli - ekkert rennandi vatn og engin leikföng.

Skólalóðin - á bláa borðinu er bali með vatni til handþvotta. Í hliðarkofanum er kennslustofa fyrir 30 börn.


Útikennsla undir skýlinu.

Lélegar aðstæður koma ekki í veg fyrir áhugasama stráka. Hjálpa hvor öðrum

Lítill skóli í sveitinni. Mikil fátækt en allt svo snyrtilegt.

Og hundurinn bíður allan daginn eftir börnunum.

0 views

© 2019 Oddný Helga Einarsdóttir