• Oddný

Að keyra vitlausu megin...

Eitt af því sem við höfðum áhyggjur af áður en við fórum hingað til S-Afríku var að hér aka allir

vitleysu megin miðað við það sem við gerum. Um tíma þá fannst mér, Ólöfu alveg óhugsandi að þetta myndi ganga hjá mér. En þá er einmitt málið að gefast ekki upp áður en látið er á reyna.

Á flugvellinum í George eftir 28 tíma flug og bið þá beið þessi líka fíni bílaleigubíll Ford eftir okkur mæðgunum . Við vorum orðnar nokkuð sjúskaðar með mikla flugriðu og eðlilega syfjaðar og þreyttar. Hvað gera bændur þá…… drekka eina Kók og gúffa í sig einu Snickersi sem var að vísu farið að leka full mikið vegna hita. Skyndiorka sem þurfti að koma okkur heim í íbúðina á fína bílnum öfugu megin. Mamman ók af stað eftir að hafa skoðað þennan öfugsnúna bíl. Skemmst er frá að segja að það gekk alveg ljómandi vel. Vegirnir til Knysna eru reglulega góðir – betri en þjóðvegir á Íslandi og það truflaði lítið að gera allt öfugt við það sem maður er vanur að gera.

Það var aðeins eitt sem vafðist verulega fyrir mér….Stefnuljósið er líka öfugt og það var erfitt að muna það. Við gáfum því beygjur í ljós með því að setja rúðuþurrkurnar í gang í tíma og ótíma…í mesta fátinu þá náði ég líka að setja á rúðupissið bæði að framan og aftan þegar ég keyrði inn í hringtorg. Oddný Helga keyrði svo á degi tvö og það ekk bara vel en hún er líka svolítið í þessu með rúðupissið…. Víða á vegunum hérna eru innfæddir að húkka far eða hreinlega að ganga á þjóðveginum. Þeir ota þá að manni peningaseðlum sem merkir að

þeir vilja borga í bensíni. Þetta er skrítið og krefst þess að farið sé varlega.

Semsagt – það er um að gera að gefast ekki upp áður en maður reynir.

0 views

© 2019 Oddný Helga Einarsdóttir