• Ólöf Sigurðardóttir

280.000 börn HIV jákvæð í S-Afríku...

Þrátt fyrir að ánægjustundirnar okkar mæðgna hér í S-Afríku séu ótalmargar þá er það því miður þannig að oft hellist yfir okkur vonleysi þegar við erum að vinna með öllum þessum yndislegu börnum. Það er erfitt að lýsa þessari tilfinningu en þetta er bara svo hrylllega ósanngjarnt að þau svo saklaus og lítil þurfi að búa við svo erfiðar aðstæður, fátækt, sjúkdóma, óreglu, sóðaskap og skort á menntun. Við fáum líka svona stingandi vandræðalegt samviskubit yfir því sem við erum að vandræðast yfir oft á tíðum…..er of feit, hreyfi mig ekki nógu mikið, borða of mikið kjöt, of mikið drasl í húsinu….. of mikið að gera í vinnunni…..Eru þetta vandamál – eða eins og við segjum hérna tilvistarkreppa hvíta ríka fólksins….?

Fjöldi barna sem við höfum verið að vinna með eru t.d HIV jákvæð – í S-Afríku eru 280.000 börn 0-14 ára HIV jákvæð – já þið lásuð rétt!!!!! Þetta eru klikkaðar tölur. Það sem verra er að aðeins 58% af þeim sem fá fyrirbyggjandi meðferð. Fullorðnir HIV jákvæðir eru um 7 milljónir hér í landinu og fjöldi barna er auk þess að vera smitaður af HIV líka munaðarlaus vegna þess að foreldrarnir eru látnir úr eyðni.

Annað sem er líka erfitt er að sjá er fjöldi barna sem er með fetal alcohol syndrome. Það er kvilli sem börn fæðast gjarnan með ef móðir hefur notað áfengi á meðgöngu. Tíðni þessa kvilla er hæst í heiminum hér í S-Afríku þar sem um 10% barna fæðist með hann. Þessir krakkar eru gjarnan seinþroska, með mikla námserfiðleika, þau eiga erfitt með að einbeita sér, eru gjarnan ofvirk, skilja illa samskiptareglur og fjölmargt fleira em gerir þeim lífið erfitt. Elsku litlu börnin.

Eitt er þó allra algengast sem stingur okkur alveg svakalega er að sjá hversu tannhirða er léleg. Almennt er það þannig í township-skólunum að ca. 1/5 af börnunum er með sýnilega brenndar framtennur eða að það vantar bara í þau tennur sem búið er að taka úr þeim vegna skemmda. Við höfum séð nokkur börn 5-6 ára gömul sem eru eiginlega ekki með neinar tennur þar sem allar barnatennurnar eru ónýtar og fullorðinstennurnar ekki komnar. Í einhverjum tilfellum hefur okkur verið sagt frá börnum í skólunum sem þurfa að fá maukaðan mat vegna þessa. Fullorðna fólkið er margt líka tannlaust – jafnvel þeir sem eru kornungir. Eina unga konu um tvítugt hittum við í skólanum í morgun þar sem hún var að aðstoða með yngstu börnin. Hún var ekki með neinar framtennur – það var sorglegt að sjá.

Ástæður þessara vandamála sem við höfum talið upp hérna eru margar. Það er auðvelt fyrir okkur ríka, vel upplýsta fólkið að dæma íbúana fyrir að gera ekki það sem rétt er. Auðvitað eiga mæður ekki að drekka á meðgöngu, auðvitað áttu ekki að kaupa dóp þegar þú átt ekki aur fyrir mat, auðvitað áttu að tannbursta barnið þitt og gefa því hollan mat, auuðvitað áttu ekki að senda barnið með snakk eða sælgæti í skólanesti….en…. ef þú veist ekki af því að þetta skipti máli þá ertu ekkert endilega að gæta að þessu. Við erum að tala um fólk sem oftast er illa upplýst. Við erum að tala um fátækt fólk sem líður oft skelfilega og reynir að gera sér lífið bærilegra með því að gleyma ömurleikanum t.d. með áfengineyslu. Við erum að tala um atvinnulaust fólk, niðurlægt fólk og fólk með litla sjálfsvirðingu. Ekki má heldur horfa fram hjá því að hér viðgengst líka mikið ofbeldi gagnvart konum sem gerir stöðu þeirra enn verri.

Samfélagið hér hefur af öllu þessu miklar áhyggjur og miklum peningum er varið í að reyna að upplýsa fólk og efla heilsugæsluna. Í hverfunum eru yfrleitt heilsugæslustöðvar þar sem þjónustan er ókeypis. Heilsugæslan kemur líka í skólana og sér til þess að börnin séu bólusett. Þannig ná þau í stóran hóp en gleymum ekki öllum þeim börnum sem ekki eru í skólum. Vandinn er gríðarlegur enda fólksfjöldinn mikill. Stjórnvöld hér hafa hins vegar ekki staðið sig vel í að mennta fólkið sitt og það þarf að laga.

Ljósið í þessu öllu er auðvitað að hér í township er hraust og duglegt fólk í meirihluta þrátt fyrir að húsnæðið þeirra sé að okkar mati ekki mönnum bjóðandi. Foreldrar hér eru líka eins og annars staðar stoltir af börnunum sínum og vilja þeim auðvitað allt það besta. Hitt er annað hvort þau hafa þekkingu á því hvað barninu er fyrir bestu eða getu til að framkvæma það. Það er líka frábært að sjá hversu mörg samtök og sjálfboðaliðar eru að leggja þessum samfélögum lið með hvers kyns stuðningi t.d. við skóla og heilsugæslu.

Það er nefnilega þannig elsku vinir að við eigum saman heima á þessari jarðarkúlu og okkur kemur öllum við ef einhver þarfnast hjálpar. Knús til ykkar allra og munum að þakka fyrir og gleðjast yfir því sem við höfum.

Á þessari götu er gjarnan fólk að selja grænmeti eða annað í smáum stíl sem það hefur ræktað sjálft. Kostar sama og ekkert en lýsir því hversu lítil efni margir hér hafa.Hvíldarstund hjá minnstu börnunum í einum skólanna sem við höfum verið í. Vel má sjá hver aðbúnaður barnanna er.


Mjög algeng sjón. Menn hlaðast upp á bíla til að komast leiðar sinnar. Skiptir þá einu hvað annað er á pallinum - rusl eða hvað sem er.

Dæmigert hús í township. Stundum er hvorki rennandi vatn né rafmagn í húsunum. Þessi er vel settur og á líka þvottavél.


Það er erfitt að vera fatlaður og sárafátækur hér.0 views

© 2019 Oddný Helga Einarsdóttir