• Ólöf Sigurðardóttir

Þakklátar og glaðar mæðgur að lokinni sjálfboðavinnu

Fyrir rúmri viku þá lukum við sjálfboðavinnunni í Knysna. Þetta hefur verið einstakur tími fyrir okkur mæðgurnar. Tíminn var fljótur að líða og við lærðum svo ótrúlega mikið – það má eiginlega segja að eftir svona upplifun verður maður ekki samur. Við kynntumst mikið af yndislegu fólki – brosandi, duglegu fólki sem vildi allt fyrir okkur gera. Þá tæpu þrjá mánuði sem við vorum í Knysna hittum við aldrei hitt á neinn sem var dónalegur, afundinn eða ógnandi á nokkurn hátt. Það finnst okkur magnað. Það er líka gaman að segja frá því að áður en við komum þangað voru margir sem ámálguðu við okkur háa glæpatíðni og mikla áhættu svo ekki sé talað um að vera inni í township. Við auðvitað tókum mark á þessu og vorum sjálfar ögn óöruggar fyrstu dagana. Það fór þó fljótt af okkur og eftir nokkra daga fórum við sjálfar um allt township á litla bílnum okkar. Við lentum aldrei í veseni hvorki þar né annars staðar og íbúarnir þar vildu allt fyrir okkur gera. Við að vísu lentum stundum í því að finna ekki skólana strax enda eru hvorki vegmerkingar né leiðbeiningar í hverfunum. Google maps er heldur ekki alveg með þetta á hreinu. Þá var bara að spyrja til vegar og gekk það alltaf vel.

Við höfum velt mikið fyrir okkur hugmyndum um hamingju og auð. Hvernig má það vera að nær allslaust fólk sem varla á mat til næstu máltíðar getur verið svona einlægt og lífsglatt? Áberandi var í hverfunum hversu fólkið var mikið saman – hópar barna úti að leika, konur með smábörn bundin við sig – stundum bæði að framan og aftan, hópar í litlu kofabúðunum að hlæja saman að einhverju sem við skildum ekki og síðast en ekki síst endalaust verið að elda saman yfir grillunum á götunum. Það virtist yfirleitt vera mikil samvera, mikill hlátur og fjör. Það upplifðum við líka í skólunum. Þrátt fyrir að oft á tíðum væri aðbúnaður mjög lélegur þá gerði starfsfólkið ótrúlega gott úr aðstæðunum. Krakkarnir voru líka áberandi sjálfstæð og dugleg. Það var lítið verið að kvarta og kveina. Þakklæti er áberandi hér og stundum þá þá fannst okkur það óþægilegt hversu þakklátt fólkið var í okkar garð. Við sem fæddar erum í mjög svo öruggu umhverfi og tilheyrum efstu fimm prósentunum í heiminum sem hefur það hvað best. Auðvitað var agalega átakanlegt að sjá skítinn, kofaræksnin og fólk í vondum aðstæðum. En þetta er samt svo skrítið – okkur finnst þau svo ótrúlega elskuleg og virðast í það minnsta vera hamingjusöm. Kirkjan og trúrækni skipa stóran sess í lífi allra hér og hefur án efa mikil áhrif til góðs. Okkur var gjarnan þakkað fyrir og við kvaddar með góðum bænum og blessun. Það var bæði fallegt og gott. Heima á Íslandi er gífurlega há tíðni þunglyndis og vanlíðunar hjá ungu fólki. Hjá ungu fólki sem flest á nánast allt sem hugurinn girnist og í mörgum tilvikum allt of mikið af öllu. Kvartstuðullinn er líka hár hjá okkur og kröfur um allt og ekkert mjög miklar finnst okkur mæðgum. Það sem ekkert kostar en skiptir kannski mestu máli er samvera – samvera með öðru fólki, kannski líka ögn meiri auðmýkt og þakklæti. Við vonum að allt það góða sem við upplifðum í þessu samfélagi fylgi okkur heim. Í S-Afríku fannst okkur frábært að vera – gott og fallegt fólk sem reyndist okkur vel og gaf okkur svo mikið.


Fallegur og súperglaður þessi gaur.


Hér eru trén leikföng - enginn stressaður yfir klifri í háum trjám...nema við mæðgurnar.


Þessi kríli voru ekki í leikskóla og voru bara sjálf á vappi um hverfið...


Mesta knús sem ég hef séð. Oddný Helga átti afmæli og er þarna innst í kássunni.


Glens í gámaskólanum. Þessi skóli eru tveir finir gámar sem lottó S-Afríku setti upp.


Morgunbæn - bæn fyrir nesti- bæn fyrir hádegismat. þakkarbæn, kveðjubæn og ....Allir bara sáttir með það.


Flott leiktæki í þessum skóla Í sumum skólum var ekkert leiktæki.


Hádegismaturinn pap og pylsubiti. Allir kláruðu alltaf allt sem sett var á diskinn.


Coca cola veit hvernig á að ná í nýja kúnna. Gefa skólunum járnspjald með nafni skólans og auglýsingu.


Nestið borðað á stéttinni.Falleg

Grillhús við götuna. Við höfðum okkur ekki í að kaupa okkur götumat í township.


Dæmigerð búð í township. Það var gaman að kíkja við og kaupa smá til að styrkja kaupmanninn í kofanum.


Kusur á bæjarröltinu var dagleg sjón..líka svín, geitur, hænur og hundar.


Krúttlegt kaffihús í buskanum.

Litrík hús og kofar í sól og blíðu.

0 views

© 2019 Oddný Helga Einarsdóttir