• Ólöf Sigurðardóttir

Öll þessi dýr á vappi

Það er fjölskrúðugt dýralífið í township. Víða eru hundar á flandri og þeir eru margir frekar ljótir greyin. Þrátt fyrir það þá eru þeir almennt vandræðalausir og láta okkur í friði. Við sjálfar erum svo sem ekkert að abbast upp á þá. Við höfum spurst fyrir um alla þessa hunda og skilst okkur að þetta séu almennt heimilishundar en hér tíðkast ekki að hafa þá lokaða inni eða í taumi. Hundarnir hanga oft við skólana og eru þá gjarnan að bíða eftir börnunum sem þeir fylgja þá heim. Auðvitað er engin hemja á því hversu mikið af óvelkomnum hvolpum bætast í hópinn en þetta virðist blessast einhvern vegin. Við mæðgur erum raunar alveg á því að Sylgja okkar myndi alveg kunna ljómandi vel við sig í þessu frelsi Raunar sést dýrabíllinn oft í hverfunum og sér hann um að taka meidda, veika og horaða hunda úr umferð. Hér eru líka öflug hjálparsamtök sem vinna í því að koma heimilislausum hundum á heimili.

Svo eru það kýrnar og kálfarnir – þau eru líka á vafri um hverfin. Oft eru þau á miðri götu og þarf þá að smeygja bílnum fram hjá þeim því þau eru ekkert að færa sig frekar en þau vilja. Kýrnar eru lunknar að finna græn svæði og garða sem eitthvað má naga í. Kýrnar fara svo til síns heima á kvöldin til að láta mjólka sig. Heimili þeirra eru oftar en ekki bara hreysi og ekki er um eiginlega sveitabæi með fjósum að ræða.

Geiturnar flakka um allt og bíta gras á opnum svæðum og í þeim görðum þar sem eitthvað grænt er að fá. Þær virðast líka rata heim eins og kýrnar – allavega þá eru þær ekki lokaðar inni í gerðum.

Aðal ruslabelgirnir eru svo svínin og það er mjög mikið af þeim í township. Svínin eru dugleg að róta í ruslinu sem er jú nóg af. Oft er hópur grísa með gyltunni og fara þau víða þvert yfir götur og reyna stundum að laumast inn í hús, kirkjur og aðra staði þar sem ekki er reiknað með svínum. Svínin virða ekki nein mörk varðandi það.

Hænurnar eru líka út um allt – hanar auðvitað líka og víða eru litlir ungar á harðahlaupum. Hanagal er meira og minna allan daginn og þeir spranga um hverfið til að sína sig. Hænurnar eru gjarnan á skólalóðunum því þar er oft hægt að krafsa í grasi. Við mæðgurnar erum farnar að kunna vel við að hafa hænurnar svona í grenndinni – það er eitthvað heimilislegt við það.

Í ákveðnum hverfum sem standa í útjaðri næst skóginum þar eru aparnir einnig á flakki. Helst eru það litlir vervet monkeys sem hika ekki við að laumast í eldhúsið og stela mat.

Til að byrja með þá fannst okkur þetta alveg hræðilegt að hafa dýrin á þessu flandri. Nú erum við orðnar vanar þessu og við höfum verið að velta því fyrir okkur hvort þetta sé endilega svo slæmt fyrir dýrin. Flest þeirra líta bara ágætlega út og þeim virðist líða ágætlega.

Hundarnir lausir allan daginn, hænurnar á flakki og svínin sömuleiðis. Við erum allavega á því að bæði svínin og hænurnar hafa það þúsund sinnum betra en búrskepnurnar sem alin eru í verksmiðjubúum um allan heim…..gaggalagú frá S-Afríku.0 views

© 2019 Oddný Helga Einarsdóttir